19.2.03

Um merkingu viðtengingarháttar í íslensku
Eftir Kristján Árnason 1981Hefur viðtengingarháttur einhverja fasta merkingu í íslensku?

Vissar samtengingar krefjast viðtengingarháttar í þeim aukasetningum sem þær tengja.
Hann fór þó að það væri rigning
Aðrar samtengingar krefjast framsöguháttar
Hann fer ef það verður rigning

Viðtengingarháttur (þt) er notaður í aðalsetningum og aukasetningum til þess að tákna óraunveruleika, ósk eða þess háttar.
Ef ég væri dómarinn ræki ég hann út af

Í mörgum tilvikum er eins og sagnir í aðalsetningum hafi áhrif á það hvort í –að setningum sem þeim fylgir er notaður viðtengingarháttur eða framsöguháttur.
Jón segir að hann þreyttur (vh)
Ég veit að þú ert framsóknarmaður (fh)

Svar við spurningu Kristjáns gæti verið að viðtengingarháttur sé notaður þegar það á að sýna fram á að það sem er í aukasetningunni kemur ekki frá þeim sem talar og þarf ekki að vera hans skoðun, heldur er verið að vitna í skoðanir annarra.

Mikilvægt atriði sem ég hafði ekki áttað mig á kom fram í greininni. Samband er á milli háttarvals í aukasetningu og þess hvort við notum persónufornafn eða afturbeygt fornafn. Ef við notum framsöguhátt getum við ekki notað afturbeygt fornafn: Jón gerði sér ljóst að María hafði svikið hann. Hins vegar ef við notum viðtengingarhátt þá notum við afturbeygt fornafn: Jón gerði sér ljóst að María hefði svikið sig. Ég held að við notum mjög oft afturbeygðu fornöfnin þar sem þau eiga ekki við.

Greinin var nokkuð strembin en með því að lesa betur og pæla dýpra fékk ég botn í hana. Ég hef ekki þurft að kenna um hætti sagna í æfingakennslu og því ekki velt þeim mikið fyrir mér, vorkenndi bara hinum sem stóðu í þessu stagli. Annars rifjuðust upp nokkrar þumalputtareglur sem gott er að hafa á hreinu þegar unnið er með viðtengingarhátt.
Fyrsta regla er að setja samtenginguna þótt eða þó að fyrir framan sögnina.
Önnur regla er að viðtengingarhátturinn lætur í ljós ósk, bæn, eitthvað mögulegt, hugsanlegt eða skilyrðisbundið.
Þriðja regla að viðtengingarháttur er notaður þegar það á að sýna fram á að það sem er í aukasetningunni kemur ekki frá þeim sem talar og þarf ekki að vera hans skoðun. Heldur er verið að vitna í skoðanir annarra.
Læt hér staðar numið því ég hætti mér ekki lengra í þessum pælingum.

16.2.03

Tilvísunarfornöfn?
2. hluti


Þó rök Höskuldar hafi sannfært mig um að „sem“ og „er“ skuli flokkast sem tilvísunartengingar eru ekki allir málfræðingar sammála. Þeir skiptast í þrjá hópa:
* Þá sem kalla sem og er tilvísunarfornöfn þó ljóst sé að þau beygist ekki.
* Þá sem geta ekki gert upp við sig hvort kalla eigi sem og er smáorð eða tilvísunarfornöfn.
* Í þriðja lagi þá sem hafa kosið að telja sem og er til smáorða en hafa ekki hætt sér út í mjög nána útlistun á því.

Röksemdarfærsla Höskuldar er mjög ítarleg og kemur hann að vísu ansi víða við í viðleitni sinni til að kynna hugmyndir sínar. Góð dæmi eru sett fram til að auðvelda skilning. Ég ætla að stikla á stóru í röksemdafærslu Höskuldar.
Af hverju á að greina sem sem tilvísunarorð en ekki fornafn?
* Sem og er eru óbeygjanleg en flest fornöfn hafa margbrotna beygingu. Undantekningar eru afturbeygða fornafnið sig sem er óbreytt í kynjum og tölu og spurnarfornafnið hvaða sem tekur ekki neinum formbreytingum.
* Flest fornöfn geta staðið í forsetningarlið en það geta sem og er ekki og hefur væntanlega aldrei getað. Dæmi : „Róm er ein þeirra borga – sem ég hef aldrei komið til. Ótækt er að segja „Róm er ein þeirra borga – til sem ég hef aldrei komið.“
* Fallorð og fornöfn geta staðið hliðstæð í setningum en það geta sem og er ekki. Dæmi „ Þetta er maðurinn – sem frægðar ég hef heyrt getið“ Hér er sem notað sem tenging en tengingar eru aldrei notaðar hliðstæðar eins og fallorð því getur sem ekki verið fornafn.
* Tilvísunarorðin sem og er standa jafnan fremst í setningu eins og eðlilegt er með tengingar en ekki er vitað til að nokkurt fornafn hagi sér þannig.
* Að er fylgifiskur samtenginga og er aðeins bætt við tengingar en ekki fornöfn eða atviksorð. Það er algengt í talmáli að bæta þessu áherslulausa að-i við ýmsar tengingar en er ekki notað í formlegu ritmáli.
* Merkingarlega vísa sem og er til persóna, hluta o.s.frv. sem nefnd eru í undanfarandi setningu, slík tilvísun er einkennandi fyrir fornöfn. Ef kafað er dýpra kemur í ljós að ekkert bendi til að tilvísunarorðin sem og er sem eiga að vísa til einhvers sem á undan er komið frekar en önnur orð í setningunni. Í tilvísunarsetningu er oftast eitt orð sem samsvarar höfuðorðinu sem tilvísunarsetningin stendur með. Ekkert segir okkur að þessi orð þurfi að vera sem og er. Mjög algengt er að fornafn sem vísa á til höfuðorðsins sé ekki með og í staðinn komi bara eyða. Dæmi; „Maðurinn tók bækurnar og _____ fór svo heim.“ Hér vantar fornafnið hann og í staðinn er eyða. Við færum ekki að greina og sem fornafn hér og segja að það vísaði til mannsins. „Maðurinn sem ___ fór heim áðan tók bækurnar“ Á sama hátt greinum við sem ekki sem fornafn heldur smáorð eða tengingu líkt og og.

Ég var talsverðan tíma að komast yfir þessa grein og þurfti ég mikið að glósa til að átta mig á þessu mikla efni sem Höskuldur lagði fram máli sínu til stuðnings.
Eftir lestur og pælingar hef ég sannfærst um að sem og er eiga fátt sameiginlegt með fornöfnum og ber því að greina þau sem tilvísunartengingar. Ég furða mig á því að enn skuli vera prentaðar kennslubækur sem skilgreina sem og er sem tilvísunarfornöfn.

14.2.03

Tilvísunarfornöfn?
1. hluti


Höskuldur Þráinsson (1980).
Höskuldur hefur grein sína á almennri umræðu um orðflokka og einkenni þeirra. Einnig rýnir hann í ýmsar kennslubækur og kannar hvernig höfundar þeirra skilgreina helstu einkenni orðflokka.
Einkennum orðflokka má skipta í þrennt:
* Setningarleg einkenni
* Beygingarleg og orðmyndunarleg einkenni
* Merkingarleg einkenni.
Í kennslubókum má aðallega finna skilgreiningar á merkingarlegum einkennum við orðflokkagreiningu (bls. 54) „Svo sem nafnið bendið til eru nafnorð nöfn eða heiti einhvers, t.d. lifandi veru, hlutar, verknaðar….“
Beygingarleg og orðmyndunarleg einkenni (bls. 55) „Auðvelt er að þekkja lýsingarorð á merkingunni og auk þess stigbreytast þau flest.“
Minnst er fjallað um setningarleg einkenni en öll orð hafa einhver setningarleg einkenni. Við málnotendur skynjuðum þessi einkenni þó við hefðum aldrei heyrt um orðflokka. Málvitund okkar segir okkur hvaða orð geta staðið saman í setningu og hver ekki. Margnotað dæmi frá Höskuldi fylgir með til glöggvunar:
„Súturinn toraði gúlið núrlega með læru kífunni“ no, so, no, ao, fs, lo, no. Við eigum ekki í vandræðum með að greina setninguna í orðflokka þó við vitum ekki hvað hún merkir.

Tilvísunarorð í íslensku eru tvö í dag, óbeygjanlega orðið sem kemur seinna inn í forníslensku en í fornnorsku. Elstu dæmi eru hugsanlega frá 11. öld og er talið að það eigi sér rætur í samanburðartengingunni sem. Sem er algengara en er í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar á 16. öld og einnig í Guðbrandsbiblíu.
Höskuldur fjallar einnig um beygjanleg tilvísunarfornöfn. Ábendingarfornafnið og spurnarfornöfnin hver og hvor voru notuð sem tilvísunarfornöfn. Talið er að um erlend áhrif hafi verið að ræða og að tungumálið hafi haft þörf fyrir beygjanleg tilvísunarorð.

Eins og áður hefur komið fram hafa sem og er verið kölluð tilvísunarfornöfn í kennslubókum.
Greinin er 23 ára gömul og kennarar hafa eflaust myndað sér skoðun á því hvort sem og er nefnist tilvísunartengingar eða tilvísunarfornöfn. Þrátt fyrir það er enn verið að prenta kennslubækur sem kalla orðin sem og er tilvísurnarfornöfn (Fallorðabókin hans Magnúsar Jóns Árnasonar bls. 44). Ég studdist við bókina í vettvangsnámi mínu í vetur en í samráði við viðtökukennara minn kenndi ég þessi orð sem tilvísunartengingu. Einnig notuðum við þá þumalfingursreglu að ef við gætum sett er í stað sem væri orðið tilvísunartenging. „Hver er maðurinn sem (er) söng lagið sem (er) Rúnar Júl samdi“.

10.2.03

Þágufallssýki
2. hluti


Það var komið inn á stéttarskiptingu í greininni. Nemendur sem áttu föður sem starfaði sem embættismaður eða var með háskólapróf komu best út í rannsókninni. Samkvæmt könnun sem gerð var árið 2001 af Birni Gíslasyni virðist „þágufallssýkin“ sækja á. Eru ekki fleiri sem ljúka háskólaprófi í dag en fyrir 20 árum – ættum við ekki að vera betur menntuð í dag en þá? Ætli „þágufallssýkin“ aukist í réttu hlutfalli við aukna menntun landsmanna?
Trúlega er „þágufallsáreiti“ víðar en á heimilum barnanna í dag. Börn hafa ekki endilega foreldra sína sem fyrirmyndir því þau eru vistuð hér og þar, á leikskólum, skólum og í frístundaklúbbum bróðurpart dags.

Við getum hugsað með hryllingi til þess þegar Björn Guðfinnsson og fleiri voru að amast við „málvillum“ sem hófust á 15. og 16. öld og sagt var frá í greininni Vont mál og vond málfræði. „Þágufallssýkin“ er fremur ung í málinu eða frá síðari hluta 19. aldar og því má búast við því að við verðum að berjast næstu 400 árin við að úrtýma henni úr málinu. Annar möguleiki er að líta á „þágufallssýkina“ sem tilhneigingu til einföldunar á málkerfinu og hætta að berjast gegn henni.
Ég er orðin alveg rosalega frjálsleg í málvöndunarmálum eftir lestur greinar Gísla Pálssonar um vont mál og vonda málfræði og sting því upp á því að við nýtum tímann með nemendum okkar í annað þarfara en að amast við „þágufallssýkinni“.

Grunnskólakennari ræddi við mig um helgina og ég nefndi þessa grein við hann og hvað ég hefði haft mikið gagn af að lesa hana. Hann sagðist náttúrulega vera að berjast við þetta alla daga og lagði fram tillögu, sem við umburðarlynda fólkið höfum komið með, að viðurkenna þessa breytingu því það yrði til þess að meira en helmingur þjóðarinnar talaði „rétt“ mál eða væri ekki „þágufallssjúkt“.
Ef málið væri nú bara svona einfalt!
Ég læt hér staðar numið.

7.2.03

Þágufallssýki
1. hluti


„Þágufallssýki“ eftir Ástu Svavarsdóttur
Greinin er fróðleg og byrjar á skemmtilegu dæmi sem gæti verið úr raunveruleikanum.
Ásta lýsir í grein sinni niðurstöðum rannsókna sem hún gerði árið 1980-1981 á 11 ára börnum til að kanna útbreiðslu „þágufallssýkinnar“. Þátttakendur voru 200 börn víðsvegar um landið. Tilgangur rannsóknarinnar var að leita svara við eftirfarandi spurningum:
1. Hver er tíðni og útbreiðsla „þágufallssýkinnar“?
2. Er hún bundin ákveðnum sögnum, öðrum fremur?
3. Skiptir máli hvers konar nafnliður er í frumlagssætinu?
4. Er „þágufallssýkin“ svæðisbundin?
5. Hafa námsárangur eða félagslegar aðstæður áhrif?

Niðurstöður Ástu voru svohljóðandi:
1. „Þágufallssýkin“ er nokkuð algeng
2. Persónulegu sagnirnar „hlakka“ og „kvíða“ eru notaðar sem ópersónulegar sagnir með þolfalli eða þágufalli. Þó er sérstaklega varað við þessum sögnum í kennslubókum. (Þú hlakkar ekkert til jólanna því þú getur ekki notað sögnina rétt!)
3. Athuguð var fallnotkun í ópersónulegum setningum með fornafni 1. persónu et. í frumlagssæti annars vegar og fornafni 3. persónu et. hins vegar en þá kom í ljós að „þágufallssýkin“ er algengari í 3. persónu. Fólk sem gætir sín vel á fallnotkun í 1. p. ( Mig langar) notar svo þágufallið í 3. p. þar sem ber að nota þolfall (stráknum langar*). Ég gerði sjálf smá könnun og þeir sem ég athugaði voru allir með fallnotkun í 1.p. á hreinu en sumir fipuðust og notuðu þágufall í stað þolfalls þegar kom að 3. persónu.
4. „Þágufallssýkin“ finnst í öllum landshlutum og ekki er marktækur munur á útbreiðslu og tíðni á milli landshluta.
5. Rannsókn Ástu gaf vísbendingu um að tengsl væru á milli „þágufallsýki“ og námsgetu nemenda. Mun sú vísbending vera í samræmi við hugmyndir Jacobsens sem telur að þolfall með ópersónulegum sögnum sé tillært án stuðnings af málkerfinu. Ef sú er raunin liggur í augum uppi að þeir sem eiga auðvelt með nám ættu ekki að vera í vandræðum með að læra „rétta“ fallnotkun með nokkrum sögnum og svo öfugt.

Greinin er 20 ára gömul en samkvæmt könnun Björns Gíslasonar 2001, er „þágufallssýkin“ útbreiddari nú en þegar rannsókn Ástu var gerð. Ástæðan gæti m.a. verið sú að talmál heyrist nú í sjónvarpi og útvarpi en það tíðkaðist varla áður. Ungu umsjónarmennirnir á Popp tíví, Skjá einum og ýmsir aðrir þáttastjórnendur tala ekki ritmál, eftir handritum sem eru ritskoðuð af íslenskufræðingum, heldur nota þeir dæmigert talmál. Það kemur einmitt fram í greininni að sagnir sem taka með sér þágufall eru algengari í talmáli en þær sem taka með sér þolfall þó þær séu ekki fleiri í málinu.

Ég tek undir hugmyndir B. Chr. Jacobsen (1980) að það megi kenna góðum námsmönnum næstum allt en slíkt nám verður bara að stagli hjá öðrum eða slökum námsmönnum. Ef nemendur ná ekki tökum á þessum þolfallssögnum hætta þeir einfaldlega að nota þær og þá dæju þær út í málinu. Ég er viss um að tíma nemenda er betur varið í að lesa sem mest og skrifa sem mest vegna þess að þannig læra þeir málfræðina með því að nota hana á raunhæfan hátt sér til gagns. Eiríkur Rögnvaldsson prófessor við Háskóla Íslands var eitt sinn spurður í kennslustund hvað væri hægt að gera til að efla orðaforða og tilfinningu fyrir málinu og hann sagði: „Að lesa og lesa sem mest því að með því eflum við orðaforða og fáum tilfinningu fyrir málinu og setningafræðinni“. Við öðlumst hæfni í að beita og skrifa fjölbreytt málsnið og stíl. Eyðum ekki tímanum í málfræðistagl heldur fáum nemendur til að lesa og skrifa og kynnast þannig töfrum íslenskunnar.

2.2.03

Vont mál og vond málfræði
2. hlutiPólitískt inntak málhreinunarstefnunnar:
Þær breytingar sem höfðu orðið á íslensku samfélagi á 20. öldinni eins og ný verkaskipting, ör þéttbýlismyndun og nýir samskiptahættir virtust hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá „málveirufræðingunum.“ Þeir voru enn í gamla tímanum og fullyrtu að eitt málsamfélag væri á Íslandi og að reglur um málvöndun væru sóttar í alþýðumálið.
Rannsóknir um samhengi á milli stéttarstöðu, samskiptahátta og námsárangurs leiddu hins vegar í ljós að náið samband var á milli uppeldishátta og þjóðfélagsstöðu, einnig var fylgni á milli stéttarstöðu og námsárangurs.
Það segir okkur að fullyrðingar „málveirufræðinganna“ um heildstæðni íslenskrar menningar stangast á við raunveruleikann.
„Málveirufræðingarnir“ urðu uppvísir að margræðni með því að fullyrða að á Íslandi væri aðeins eitt málsamfélag en leyfa sér í næstu setningu að bendla „málvillur“ við lægri stéttir þjóðfélagsins og litla greind. Síðan er unnið að því leynt og ljóst að steypa alla landsmenn í sama mótið með því að berja úr þeim „málvillur“ og kenna þeim „rétt mál.“ Þrátt fyrir að þessir landsmenn hafi alist upp við ákveðnar málvenjur „málvillur.“ Það var hlutverk kennara að finna þessa örfáu einstaklinga sem ekki notuðu „rétt“ mál og kenna þeim hið eina sanna íslenska mál og læða inn hjá þeim í leiðinni hve lítilmótlegir þeir (og þeirra fjölskyldur) væru að geta ekki talað „rétt“.
Hvað yrði um þessa kennara í dag ef þeir fengju nemendur af erlendum uppruna í bekkinn til sín? Í dag tel ég að það reyni virkilega á hæfileika kennarans til að draga fram styrkleika hvers og eins nemanda óháð þjóðerni og tungumálakunnáttu og miða kennslu við hæfi.

Viðmið á villigötum:
Gísli telur „málveirufræðinga“ á villigötum með áherslumál sín sem hrifu í sjálfstæðisbaráttu okkar. Nú er mál að hætta að sjá málvilludrauga í hverju horni og snúa sér að því að kanna eðli málbreytinga og rannsaka „vistfræði“ íslensks máls. Það var einmitt það sem Gísli lagði til í grein sinni.

Nú hef ég marglesið grein Gísla og fundist hún skemmtileg. Ég hef velt fyrir mér hlutverki málfræðinga í dag og er einnig forvitin um stefnu stjórnvalda um íslenskt mál. Ég fór á vef hjá Íslenskri málstöð og fann þar upplýsingar um hlutverk stofnunarinnar:
Íslensk málnefnd er málrætkar- og málverndarstofnun.
Hlutverk hennar er að vinna að eflingu íslenskrar tungu og varðveislu hennar í ræðu og riti.
Ég held að markmiðin séu í raun þau sömu og áður en vinnubrögð málfræðinga önnur. Þeir eru að rannsaka tungumálið og velta fyrir sér hvað það er sem veldur málbreytingum en ekki að týna þær eins og lýs úr höfði fólks. Þeir gera sér grein fyrir því að málið er lifandi og tekur alltaf einhverjum breytingum. Sumar ganga til baka, aðrar eru tískusveiflur og enn aðrar verða vegna erlendra áhrifa eða eru staðbundnar.

Ég man þegar ég hafði eitt sinn samband við Íslenska málstöð til að fá skorið úr ágreiningsmáli milli mín og vinar míns. Dæmið var: Hvort á að segja „Ég þori þessu ekki“ eða „Ég þori það ekki.“ Elskulegur maður talaði við mig og sagði mér að við hefðum í raun bæði rétt fyrir okkur en að annað væri eldra í málinu. Ég hafði bara viljað fá afdráttarlaust svar, rétt eða rangt en þarna varð ég fyrst vör við umburðarlyndið sem við eigum að hafa gagnvart málvenjum annarra.

Þetta hefur verið þörf lesning fyrir mig og gagnleg.


Vont mál og vond málfræði
1. hluti


Gísli Pálsson fallar um þröngsýni málvöndunarmanna og hvernig þeir hafa með einstrengislegri málboðun reynt að endurverkja liðinn tíma og snúa við því breytigarferli sem hefur leitt til málafbrigða samtímans. Greinin birtist í Skírni árið 1979 og hefur eflaust komið mjög illa við málvísindamennina sem töldu sig vera að vernda hreinleika málsins með því að benda landsmönnum á hvað væri „gott mál“ og hvað „vont mál“. Greinin er bráðskemmtileg og Gísli vandar þessum málvísindamönnum sem hann kallar „málveirufræðinga“ ekki kveðjurnar.
Ég var í sama liði og „málveirufræðingarnir“ sem lýsti sér í því að ég hafði mjög ákveðnar skoðanir um það hvernig fólk ætti að tala. Leið mín lá svo í HÍ að læra íslensku og þá komst ég að því að því meira sem maður lærir um málið því umburðarlyndari verður maður gagnvart málnotendum þess.

Sögulegt baksvið „veirumannasamfélagsins:“
Hreintungustefna varð öflug á Íslandi á 19. öld. Þá var því haldið fram að íslensk menning væri einstæð vegna þess að öll þjóðin talaði á sama hátt. Þjóðernissinnar nýttu sér þessi sannindi í sjálfstæðisbaráttunni og umbuðnuðu „málveirufræðingunum“ með því að koma þeim í stöður þar sem þeir gátu haldið áfram að vernda málið. Háskólinn varð aðalbækistöð þeirra. Þar gátu málveirufræðingarnir kennt nemendum sínum að leita að málvillum og plokka „lýs“ úr höfði landans. Á fimmta áratugnum kom Björn Guðfinnsson fram á sjónarsviðið og komst að því að Íslendingar höfðu ekki samræmdan framburð. Hann ætlaði sér að samræma í eitt skipti fyrir öll framburð landans og fékk til þess styrk úr Ríkissjóði. Björn amaðist við „flámæli“ sem var nokkuð útbreidd og útrýmdi henni, að mestu, með því að kenna fólki sem var flámælt „viðurkenndan“ framburð. Þrátt fyrir þetta skrifar Halldór Halldórsson (1971) að Íslendingar þurfi ekki að læra aðra íslensku í skólum en þeir læra á sínum heimilum (gleymir flámælinu). Halldór segir einnig (1964) að í Reykjavík sé „skrílsmál“ sem nái til lægstu laga þjóðfélagsins – er þá til lágstétt sem talar annað mál?
Gísli telur að þær hjálparaðgerðir sem fóru fram hafi ekki orðið Íslendingum til góðs heldur valdið „málótta“ og „ofvöndun.“

Skilyrði fyrir þátttöku:
Málveirufræðingar höfðu þrjár hugmyndir að leiðarljósi í málflutningi sínum:
1. að íslenskt mál hafi verið „samfellt“ frá upphafi
2. að ekki sé unnt að greina „mállýskumun“ í íslensku máli
3. að brennimerkja skuli óeðlileg afbrigði í máli

1. Rétt er að breytingar sem orðið hafa á íslensku máli eru minni en hjá nálægum þjóðum. Þrátt fyrir það eru hljóðbreytingar í málinu meiri en okkur er talið trú um. Við ættum í mestu vandræðum með að lesa hinar „lifandi“ fornbókmenntir okkar þó að „málveirufræðingarnir“ haldi öðru fram.
2. Hugtaki mállýska hefur verið notað sem skilgreining á framburðareinkennum eftir landshlutum. „Málveirufræðingarnir“ sleppa því alveg að fjalla um félagslega þætti sem hafa ekki síður áhrif á mállýskur. Reynsluheimur fólks sem lifði í bændasamfélagi og þess sem lifir í iðnaðarsamfélagi hlýtur að vera gjörólíkur og menning fólksins hlýtur að taka mið af því.
3. „Málveirufræðingarnir“ voru duglegir að segja til um hvaða málafbrigði væru „málvillur“ en þeir höfðu ekki áhuga á að kanna ástæður málafbrigða, tíðni eða útbreiðslu. „Flámæli“ var talið rangt mál en samkvæmt rannsóknum Hreins Benediktssonar var „flámælið“ rökrétt afleiðing af þróunarferli sérhljóðakerfi málsins. Auk þess var tíðni „flámælis“ háð félagslegri og efnahagslegri stöðu manna. Aðrar „málvillur“ sem málveirufræðingar ömuðust við, mátti rekja aftur á 15. og 16. öld. Sem dæmi má nefna beygingu á orðunum dóttir og læknir. Þessi orð beygjast í þf. et. dóttur og lækni en algengt var að beygja þau í þf. et. dóttir og læknir. Fólk á enn í vandræðum með að beygja þessi orð og fleiri eins og t.d. karlmannsnafnið Birkir sem ég er dálítið viðkvæm fyrir vegna þess að sonur minn ber það. Hef ég heyrt mjög fjölbreyttar beygingarmyndir á því, eins og leiktu við Birkir og frá Birkiri.

Þegar „málvillur“ hafa skotið rótum eða þykja algengar í máli kemur upp sú spurning hjá mér. Hvenær verður „málvilla“ viðurkennd? Hvenær hættum við að berjast við „þágufallssýkina“ eða að kenna að sagnirnar „hlakka, kvíða og finna“ séu persónulegar sagnir og að ég hlakka sé „rétt“ og mér hlakkar sé „rangt?“ Það sem ég á við er, hvenær eða hvað þarf málbreyting að hafa lifað lengi til að verða viðurkennd sem „rétt“ mál eða jafnrétt og það sem notað var fyrir í málinu?